Elsku afgangarnir

Nú árið er liðið og allt það… en skáparnir hjá mörgum fullir af afgöngum. Matarsóun er einn af okkar verstu ósiðum og mikilvægt að nýta afganga eins og við getum. Þá er hugmyndaflugið okkar besti vinur. Ótrúlegustu hráefni passa ágætlega saman og eina leiðin til að vita hvernig eitthvað smakkast er að prófa. Það versta sem getur gerst er að það sé ekki eins gott og við vonuðum 🙂 Þetta er ekki nákvæm uppskrift, heldur frekar hvatning til að prófa ykkur áfram með nýtingu afganga.

Að þessu sinni átti ég afgang af hrísgrjónum, kjúklingabaunum, rauðlauk og nokkra kirsuberjatómata sem máttu ekki bíða mikið lengur. Til að fá gott bragð bætti ég við matskeið af söxuðum hvítlauk og matskeið af söxuðu engiferi, auk þess að ég sneiddi niður hálft chilli og saxaði 5 karrílauf. Svo notaði ég líka þetta sígilda, ólívuolíu, salt og svartan pipar. Þið getið auðvitað notað hvaða krydd sem er.

Ég skar rauðlaukin í þunnar sneiðar og kirsuberjatómatana í tvennt. Hitaði olíu á pönnu og skellti svo öllu út hana og steikti aðeins með kryddinu. Mundi að ég átti soðið egg í ískápnum og skellti því út á. Þetta varð herramannsmatur en hefði þó orðið betri ef ég hefði átt meiri afgang af hrísgrjónum 🙂

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.