Breskar jólabökur

Í Bretlandi eru svokölluð Mince Pie ómissandi á aðventu og jólum. Smábökur, sem fylltar eru með blöndu af ávöxtum og berjum (ýmist ferskum eða þurrkuðum), börk af sítrus ávöxtum, sykri, brandíi og tólg. Til forna var líka kjöthakk í þeim. Mér fannst þetta ekki mjög gott þegar ég flutti til London, en nokkrum árum síðar var ég orðin stórhrifin. Síðan ég breytti um mataræði hef ég ekki getað smakkað þetta góðgæti. Nú er ég búin að þróa mína eigin útgáfu. Hún er ansi mikið öðruvísi, en ljómandi góð líka 🎄

Hráefni

Bökuskel

Hráefni

2 bollar möndlumjöl

1/2 bolli tapioka

1/2 bolli hrísmjöl

2 msk brædd kókosolía

25 g vegan smjör, kubbur frá Naturli

1 egg, eða eða 1 chia egg (1 msk möluð chiafræ og 2 msk vatn)

1/2 tsk salt

2-3 msk vatn

Sulta

2 bollar berjablanda, frosin

1 bolli trönuber, fersk

10 jarðarber, fersk

1 bolli vatn

2 msk chia fræ

1 msk börkur af mandarínu, smátt rifinn

1 tsk börkur af sítrónu, smátt rifinn

2 tsk malað Allrahanda, frá Kryddhúsinu

1 tsk kanill, frá Kryddhúsinu

1 tsk hreint vanilluduft, frá Rapunzel

1 msk brandy, má sleppa

stevíudropar, ef ykkur finnst sultan ekki nógu sæt

Þessi uppskrift er gerð í samstarfi við Kryddhúsið.

Aðferð

Byrjið á að gera sultuna. Það má vel sjóða hana löngu fyrr ef það er hentugra. Best að geyma hana í tandurhreinni krukku inni í ískáp.

Skerið jarðarberin í helminga og rífið sítrónu og mandarínubörk.

Malið Allrahanda í morteli.

Setjið allt nema brandí og stevíudropa í skaftpott og látið malla á lágum hita í u.þ.b. 5 mínútur. Hrærið í annað slagið með sleif og kremjið trönuberin aðeins.

Bætið brandí saman við (og stevíu ef þarf) og sjóðið áfram í 2-3 mínútur.

Kælið.

Ath. að ef ykkur líkar ekki bragðið af Allrahanda má nota 2 tsk af kanil og 1/2 tsk. af negul.

Forhitið ofninn í 170°C

Bræðið kókosolíuna og látið hana kólna aðeins.

Smyrjið bökunarmótin með kókosolíu.

Sigtið saman möndlumjöl, tapíoka og hrísmjöl í skál. Saltið og blandið svo vel saman.

Síðan kemur kókosolían og þegar þið eruð búnar að píska hana saman við er deigið eins og grófur sandur.

Að síðustu eru egg (eða chia egg sem beðið hefur í 5 mínútur) og vegan smjör í litlum bitum sett út í og þá er best að nota hendurnar til að blanda og hnoða saman á sama hátt og þegar hefðbundið bökudeig er gert. Þetta er erfiðara en þegar um smjördeig er að ræða og það þarf að bæta vatni út í í lokin.

Takið u.þ.b. 1/4 af deiginu frá til að búa til stjörnurnar. Fletjið það út með kökukefli. Það er mun erfiðara en að að fletja út venjulegt deig með glúteni og best að fletja bara út lítinn hluta í einu. Þolinmæðin þrautir vinnur allar. Stingið út stjörnur.

Skiptið afganginum af deiginu í bökumót og þrýstið því vel niður í mótin. Skeljarnar eiga að vera þunnar.

Forbakið skeljarnar í 5 mínútur til að botninn verði ekki of rakur til að halda sultunni.

Takið skeljarnar út, fyllið með sultunni og leggið stjörnunar yfir.

Setjið aftur í ofninn og bakið við 170 gráður í 15 mínútur.

Þessi uppskrift er gerð í samstarfi við Kryddhúsið.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.