Baba ganoush með kryddjurtum

Hráefni

1 stórt eggaldin

2-3 hvítlauksgeirar

1 msk tahini

2-3 greinar rósmarín

4-5 greinar blóðberg

1/2-1 chilli

1/2 lítil sítróna, safinn

ólífuolía

salt og svartur pipar

Aðferð

Forhitið ofninn í 220°C.

Hreinsið hvítlaukinn og skerið annan geirann í tvennt. Takið hálfan geira frá og saxið afganginn. Fræhreinið chilli og saxið. Skerið eggaldin í tvennt eftir endilöngu. 

Penslið eggaldin skurðfletina með ólífuolíu og nuddið þá með hálfa hvítlauksgeiranum. 

Stingið kryddjurtunum í eggaldinið eins og sjá má á myndinni. Skiljið eftir tvær greinar af blóðbergi. 

Bakið í ofninum í a.m.k. 35 mínútur. Þau þurfa að hafa bakast vel í gegn og það er í góðu lagi að kryddjurtirnar verði svartar og yfirborðið sé alveg á mörkum þess að brenna. 

Fjarlægið kryddjurtirnar.

Eftir að þið hafið tekið eggaldinið út úr ofninum er gott að það hvíli aðeins meðan þið látið chilli og hvítlauk malla í olíu á pönnu. 

Skafið síðan aldinkjötið úr hýðinu og yfir á skurðbretti. Brjótið það upp með hnífi eða gaffli. 

Setjið aldinkjötið í pönnuna þegar hvítlaukurinn er aðeins að byrja að taka lit og hrærið saman.

Bætið tahini, sítrónusafa og laufunum af blóðberginu saman við eggaldinið á pönnunni og kryddið blönduna með salti og svörtum pipar. Blandið öllu vel saman og færið það svo yfir í skál. 

Það er smekksatriði hvort Baba ganoush er borið fram svona eða sett í blandara til að það verði að mjúkri hræru. Mér finnst hvort tveggja gott. 

Athugið að magn af kryddi og sítrónu er líka algjört smekksatriði. Eins er hægt að sleppa chilli, og þess vegna kryddjurtunum líka, eða nota aðrar. Sígilda uppskriftin af Baba ganoush er með steinselju, en ég hef líka notað kóríander. Ef þið eigið ekki tahini er hægt að nota vegan smjör í staðinn. Kemur aðeins annað bragð, sem mér finnst reyndar ekki síðra. Athugið líka að bragðið verður betra þegar Baba ganoush hefur beðið í ískáp yfir nótt. 

Hollt og gott viðbit með brauði og líka ljúffeng ídýfa.

Brauðsneið með salatblaði, babaganoush, gulu tómatsalati og svörtum pipar.
Blóðberg og rósmarín lifir enn í gróðurhúsinu og því voru það kryddjurtirnar sem ég notaði að þessu sinni.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.