Sítrónusmákökur með kanilmöndlukurli, sesamfræjum eða sítrónuberki

Mynd: Ernir/Fréttablaðið

Hráefni

1 bolli hrísmjöl
1/2 bolli möndlumjöl (eða soya mjöl)
1/2 bolli kókoshveiti
1 msk stevíuduft, eða 12 dropar stevía
1 msk kókosolía
1 egg
40 g vegan smjör, blokk frá Naturli
1/2 bolli möndlumjólk (eða önnur jurtamjólk) 1 sítróna
1/2 tsk hreint vanilluduft
1/4 tsk salt

Uppskriftin er gerð í samstarfi við Mabrúka og Good Good.

Ofan á

1 eggjahvíta
1 tsk stevíuduft eða nokkrir dropar stevía

saxaðar möndlur sem hafa verið ristaðar aðeins á pönnu með kanil og vegan smjörklípu

eða

sólþurrkaður sítrónubörkur frá Mabrúka

eða

sesamfræ

Aðferð

Forhitið ofninn í 170°C Bræðið kókosolíuna og kælið.

Þvoið sítrónuna, rífið börkinn og kreistið safann úr sítrónunni í skál. Setjið eina teskeið af sítrónuberki út í safann, hrærið stevíuna saman við og síðan jurtamjólkina. Sítrónubörkur frá Mabrúka gefur sterkara og betra bragð.

Sigtið saman hrísmjöl, möndlumjöl (eða soyjamjöl), kókoshveiti, salt og vanillu í aðra skál og blandið vel saman.

Skerið vegan smjörið í litla bita.

Hellið kókosolíunni og vökvanum saman við þurrefnin og hrærið aðeins saman. Síðan fer eggið saman við og að lokum smjörbitarnir. Best er að hnoða það saman í höndunum á svipaðan hátt og þegar hefðbundið smjördeig er gert. Mótið deigið í rúllu og kælið hana í ísskáp í a.m.k klukkustund.

Að fletja þetta deig út er erfiðara en þegar um venjulegt smákökudeig er að ræða því það er lausara í sér, þar sem ekkert glúten heldur því saman. Það er þó vel gerlegt, gætið þess bara að fletja lítið út í einu og setja svolítið hrísmjöl bæði á borðflötinn og kökukeflið. Einnig er mikilvægt að þrýsta ekki kökukeflinu fast niður heldur leyfa því að rúlla létt yfir deigið.

Stingið út kökur og raðið þeim á bökunarplötu með bökunarpappír.

Þeytið aðeins eggjahvítuna með stevíunni og penslið hverja smáköku með henni. Setjið kanilmöndlur, sítrónubörk frá Mabrúka eða sesamfræ ofan á eggjahvítuna.

Bakið við 170 gráður í 10 mínútur og kælið á rist.

Mér finnst gott að geyma smákökurnar í frosti og borða þær beint úr frystinum. Þær eru nefnilega ekki jafn stökkar og smákökur úr hefðbundnum hráefnum, en hálffrosnar líkjast þær þeim.

Uppskriftin er gerð í samstarfi við Mabrúka og Good Good.

Hún var birt í Fréttablaðinu 2. desember 2022.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.