Einhverjir muna ef til vill eftir því að á tímabili var sítrónukaka eftir minni uppskrift seld í bakaríi sem ekki er lengur til, Cooking Harmony. Nú ætla ég að birta uppskriftina, þó hún sé reyndar ekki alveg eins og sú sem seld var þar því nú nota ég Sítrónublöndu frá Mabrúka, sem mér finnst mjög góð. Í blöndunni er svartur pipar auk sítrónubörksins og þau sem ekki eru hrifin af því geta einfaldlega notað eingöngu sítrónubörk. Þannig var gamla uppskriftin. Kakan var vinsæl á sínum tíma og enn fæ ég fyrirspurnir um hvort ekki sé hægt að fá hana einhvers staðar. Þau sem hafa gaman af að baka geta allavega prófað að baka hana sjálf núna. Gangi ykkur vel 🍋
Hráefni
1 og 1/2 chia egg (1 og 1/2 msk chia fræ og 3 msk vatn), eða tvö egg
1 msk ólífuolía
1/4 bolli safi úr sítrónu
1 tsk sítrónubörkur, fínt rifinn
1 tsk Sítrónublanda, frá Mabrúka
3/4 bolli möndlumjólk
1 tsk vanilla
2 tsk birkifræ
1 bolli kjúklingabaunamjöl
1 bolli möndlumjöl
1/2 bolli tapioka
1/2 bolli hrísmjöl
1 msk stevíuduft
1 msk eplamauk, lífrænt og án aukaefna
2 tsk matarsódi
2 tsk vínsteinslyftiduft
1/4 tsk sjávarsalt
Glassúr
1/4 bolli sítrónusafi
1 tsk sítrónubörkur, fínt rifinn
1 tsk Sítrónublanda, frá Mabrúka
1-2 msk stevíuduft
1 tsk örvarrót
Aðferð
Hitið ofninn í 170 gráður.
Setjið chia fræinn og vatnið í stóra skál og látið bíða í fimm mínútur.
Rífið börkinn og kreistið safann úr sítrónunum. Oftast duga tvær. 1/4 bolli af safanum fer í skálina saman við chia eggið og afgangurinn í lítinn skaftpott.
Hrærið safann, börkinn og Sítrónublönduna frá Mabrúka saman við chia eggið.
Bætið svo við olíu, stevíudufti, vanillu, salti, birkifræum, eplamauki, matarsóta og vínsteinslyftidufti og hrærið. Það freyðir aðeins.
Næst kemur svo möndlumjólkin og að lokum þurrefnin. Gott að sigta þau út í og hræra saman með sleif þar til deigið hangir vel saman og er ekki kekkjótt. Það á að vera mjög þykkt.
Bakið í aflöngu brauðformi í 45-50 mínútur.
Glassúr
Á meðan er stevían hrærð saman við sítrónusafann, börkinn og Sítrónublönduna frá Mabrúka í skaftpottinum og þegar það hefur samlagast er örvarrótinni bætt við. Hitið að suðu við lágan hita þar til blandan þykknar aðeins og leyfið henni að malla í 1-2 mínútur. Hrærið varlega allan tímann.
Þegar kakan er bökuð er gott að gata hana með gaffli og hella svo blöndunni yfir.
Gott að hafa bláber og þeyttan kókos- eða hafrarjóma með kökunni.
Ljómandi fínt að gera muffins úr deiginu líka.
Þessi uppskrift er gerð í samstarfi við Mabrúka.
Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.