Shakshuka frá Túnis

Shakshuka er hefðbundinn og fljótlegur réttur, sem upprunninn er frá Túnis, en hefur náð vinsældum víða um heim. Shakshuka þýðir blanda og þessi réttur er tilvalinn til þess að nýta afgangana sem þið eigið í ískápnum. Hjá Mabrúka er nú hægt að fá fullkomna kryddblöndu í þennan rétt, hún inniheldur Zaatar, kóríander fræ, túrmerik, hvítlauk, broddkúmen, svartan pipar, cayenne pipar og salt. Hér er svolítið myndband frá því að Safa, eigandi Mabrúka, kom í heimsókn og við elduðum Shakshuka.

Hráefni

1 dós niðursoðnir tómatar, saxaðir

2 msk tómatmauk, lífrænt og án aukaefna

1/2 laukur

3 hvítlauksrif

sellerístilkur, svona 5-10 sm.

1/3 bolli sólblómafræ

2 kúfaðar msk Shakshuka kryddblanda, frá Mabrúka

3-4 egg

ólífuolía til steikingar

salt og svartur pipar, ef vill

knippi af ferskum kóríander

Aðferð

Malið sólblómafræin aðeins, gætið þess að mala ekki það mikið að þau verði að dufti.

Hreinsið og saxið lauk, hvítlauk og sellerí.

Steikið lauk, sellerí og sólblómafræ í olíunni við meðal hita þar til laukurinn er að verða glær. Bætið þá hvítlauknum út í og steikið aðeins lengur, en passið að hann brúnist ekki.

Bætið Shakshuka kryddblöndunni út í pönnuna og hrærið hana vel saman við áður en tómatarnir og tómatmaukið fara út í. Látið malla í u.þ.b. 10 mínútur þar til blandan hefur þykknað. Smakkið til og bætið salti og/eða pipar út í.

Gerið dældir fyrir eggin í blönduna og brjótið eitt í hverja dæld. Setjið lokið á pönnuna og leyfið þessu að malla þar til eggjahvíturnar hafa stífnað og eru orðnar hvítar, u.þ.b. 7-8 mínútur, en það er reyndar misjafnt hversu mikið elduð egg fólk vill. Skreytið með ferskum kóríander.

Ath. þið getið notað hvaða grænmeti sem er í réttinn. Einfaldlega það sem þið eigið til. Hér nota ég sellerí og sólblómafræ, en algengast er að nota papriku. Sveppir eru líka mjög góðir í Shashuka, sem og gulrætur, svo eitthvað sé nefnt. Líka mjög gott að nota smá Harissa frá Mabrúka með.

Fínt að bera fram með salati og brauði.

Þessi uppskrift er gerð í samstarfi við Mabrúka.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.