Sætkartöflusúpa

Hráefni

600 g sætar kartöflur

200 g smjörbaunir

1, 2 – 1,5 l vatn

1/2 laukur

4 hvítlauksgeirar

1 msk tómatmauk

1 msk (eða teningur) grænmetiskraftur, án glútens og aukaefna

6-8 karrílauf, fersk eða frosin

1 rauður chilli

ögn af cayenne pipar, ef vill

3 msk ferskur kóríander, ef vill

ólífuolía til steikingar

salt og svartur pipar

Aðferð

Skrælið sætu kartöflurnar og skerið þær í stóra teninga.

Hreinsið og saxið lauk, hvítlauk og chilli. Saxið einnig kóríander ef þið notið það.

Steikið lauk, hvítlauk, chilli, kóríander og karrílauf í svolitla stund ásamt tómatmaukinu.

Bætið sætu kartöflunum saman við og steikið aðeins áfram áður en þið bætið smjörbaununum, vatni og grænmetiskrafti saman við.

Látið malla þar til sætu kartöflurnar eru orðnar mjúkar, eða í u.þ.b. 20 mínútur.

Maukið með töfrasprota og smakkið til.

Það er mjög misjafnt hvað fólk vill mikið krydd, svo þið bætið við eða minnkið að vild. Sama má segja um þykktina á súpunni. Þið ákveðið magnið af vatni innan rammans sem gefinn er upp.

Hér er súpan skreytt með smávegis sýrðum vegan rjóma, kóríanderolíu og ristuðum kjúklingabaunum. Það er mjög gott, en má eins nota t.d. kókosrjóma og fræ.

Hér eru hins vegar nokkrar smjörbaunir, kóríanderolía og ferskt kóríander. Ef þið eruð ekki fyrir kóríander má t.d. nota steinselju í staðinn.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.