Sætkartöflusnittur með avokadomauki

Hráefni

1 sæt kartafla 

salatblöð

2-3 avokado

1/4 rauðlaukur

1 hvítlauksrif

1/2 límóna (safinn)

1 msk saxað, ferskt kóríander (má nota steinselju í staðinn)

salt og svartur pipar

ólífuolía 

sprettur

granateplakjarnar (má sleppa)

Aðferð

Stillið ofnin á grill. 

Flysjið sætu kartöfluna og skerið hana í rúmlega 1 sentimeters þykkar sneiðar. Hægt að nota stungujárn til að gera snitturnar kringlóttar, en ég notaði lítið staup og skar í kringum það.

Veltið sætkartöflusnittunum upp úr olíu og kryddið með salti og svörtum pipar. 

Setjið þær á plötu og undir grillið. Fyrri hliðin er grilluð í 4-5 mínútur, síðan er snittunum snúið við og þær grillaðar áfram í 1-2 mínútur. Grill eru misjöfn svo það er mikilvægt að fylgjast vel með. Þær brenna auðveldlega. Það er líka hægt að grilla snitturnar á grillpönnu. 

Látið snitturnar jafna sig á grind meðan þið búið til avokadomaukið.

Hreinsið avokadoið, notið skeið til að ná kjötinu úr hýðinu, og setjið það í skál. Stappið með gafli.

Saxið rauðlauk, hvítlauk og kóríander og blandið saman við. Að lokum fer límónusafinn út í og salt og svartur pipar eftir smekk.

Setjið salatblöð á disk og raðið sætkartöflusneiðunum á þau. Rúmlega teskeið af avokadomaukinu passar á hverja snittu. Skreytið með sprettum og granateplakjörnum að vild. 

Fyrir nú utan hvað sprettur og salat er hollur matur gleður mig að velunnarinn minn, VAXA, lætur gott af sér leiða.

Þessi uppskrift er unnin í samvinnu við VAXA .

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.