Kínóasalat með sinnepssósu

Þetta salat er einfalt að útbúa og nánast hægt að nota hvaða grænmeti sem er. Ég fer eftir því hvað er til heima og þegar ég gerði salatið síðast átti ég blómkál, spergilkál og Palermo papriku. Ég hef líka stundum gert þetta með tómötum, ýmsum tegundum af baunum og gulrótum, svo fátt eitt sé nefnt. Alltaf gott að nýta afgangana. Ég sauð hálfan bolla af kínúa þó það sé of mikið í þetta salat. Mér finnst gott að eiga afgang af því í ísskápnum, en þið getið soðið minna ef þið viljið. Það er líka smekksatrið hve mikið kínúa á móti grænmeti er haft í salatinu og ég nota frekar lítið.

Í salatssósuna er líka hægt að bæta kryddi og jurtum, en þetta er hversdags útgáfan, bragðmild og fín.

Uppskriftin er unnin í samstarfi við VAXA og Philippo Berio.

Hráefni

salatblöð, frá VAXA

1/2 bolli kínóa

1 blómkálshöfuð, lítið

spergilkál, álíka mikið og magnið sem þið notið af blómkáli

Palermo paprika (líka hægt að nota venjulega)       

salt og svartur pipar

olía til steikingar

Salatsósa

70 g olía

1/2 sítróna, safinn

1 tsk sinnep, kúfuð

1 hvítlauksgeiri

salt og svartur pipar

granateplakjarnar

Aðferð

Þvoið kínúað undir rennandi vatni í u.þ.b. mínútu. Látið suðuna á vatni í stórum potti koma upp á meðan. Í leiðbeiningum er yfirleitt sagt að það þurfi 2 hluta af vatni á móti 1 af kínóa, en mér finnst betra að hafa meira en það. Setjið kínóað út í pottinn og látið malla í ca. 15- 20 mínútur. Sigtið vatnið frá og kælið.

Hreinsið hvítlaukinn og setjið allt sem fer í salatsósuna í blandara. Maukið þar til það hefur samlagast vel. 

Skiptið blómkáli og spergilkáli niður í kvista, og skerið paprikuna nokkuð smátt. Veltið upp úr olíu. Kryddið með salti og svörtum pipar. Hitið stóra pönnu og veltið grænmetinu á henni þar til það hefur brúnast svolítið. Þeir sem það vilja geta líka haft grænmetið hrátt.

Setjið grænmetið í skál og kínóa saman við. Hversu mikið er smekksatriði. Blandið vel af salatsósu saman við, en setið afgangin af henni í könnu. Þá geta þeir sem vilja fengið sér meiri sósu.

Raðið salatblöðum á disk og hrúið grænmetisblöndunni ofan á. Skreytið með granateplakjörnum.

Uppskriftin er unnin í samstarfi við VAXA og Filippo Berio.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.