Hrísgrjónapasta með shiitake sveppum og pestó

Hráefni

200 g hrísgrjónapasta (rice pasta) 

100 g shiitake sveppir

1/2 bolli ólífuolía

1 msk sítrónusafi

4 hvítlauksrif

1 bolli basil

1 bolli steinselja

1/4 bolli valhnetur

1 msk hempfræ

1 tsk jalapeño (má sleppa)

salt og svartur pipar

olía til steikingar

Aðferð

Byrjið á að gera pestó-ið og það má þess vegna gera það nokkuð löngu áður.

Afhýðið hvítlaukinn og setjið tvö rif í blandara. Geymið hin. Kreistið safa úr sítrónu og setjið 1 msk út í blandarann. Síðan koma valhneturnar, hempfræin og jalapeño. Blandið þar til það verður að grófu mauki. Blandið basil og steinselju saman við og látið vélina ganga áfram. Hellið ólífuolíunni saman við í mjórri bunu með blandarann í gangi. Kryddið með salti og svörtum pipar og smakkið til.

Látið vel af vatni bullsjóða, setjið pastað út í og saltið aðeins. Sjóðið það síðan samkvæmt leiðbeininum á umbúðum. Yfirleitt í u.þ.b. 10 mínútur. Það er einnig hægt að nota annað glútenlaust pasta, eins og t.d. úr grænum baunum, linsubaunum eða kjúklingabaunum.

Meðan pastað sýður er olía hituð á pönnu og hvítlauksrifin sem eftir voru söxuð fínt. Steikið sveppina upp úr olíu og skellið hvítlauknum á pönnuna rétt áður en sveppirnir eru passlega steiktir. Saltið og piprið. 

Sigtið vatnið frá pastanu og setjið það í skál með vel af pestói. Skammtið pasta á diska og setjið sveppina út á. Að lokum er aðeins meira pestó-i bætt út á og skreytt með jurtum ef vill.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.