Hollt snarl á Óskarsvöku

Hápunkturinn var þegar Hildur Guðna fékk Óskar fyrir tónlist sína í Jókernum. Þarna er ég í sæluvímu í fréttasettinu hjá Boga að tala um fyrsta íslenska Óskarverðlaunahafann.

Eftir að hafa haft atvinnu af að fjalla um kvikmyndir í áratugi er nóttin sem Óskarsverðlaunin fara fram ein af bestu stundum ársins. Hér áður fyrr hélt ég mér vakandi með rótsterku kaffi og alls konar snakki og nammi. Naslið mitt yfir nóttina núorðið er töluvert öðruvísi en fyrrum daga og mér datt í hug að deila með ykkur hvað ég ætla að hafa við hendina í nótt. Þar á meðal ný uppskrift að nammi, Saltkaramellubitar með pecan hnetum. Sjá neðst.

Það er hægt að fá dásamlegar blóðappelsínur um þessar mundir og þær munu sannarlega hressa mig við ef ég fer að dotta.

Ég borða ekki hefðbundið snakk, en þetta er úr Cassava mjöli og meinhollt. Virkilega gott líka.

Salsa verde

Salsa verde

Hrátt grænmeti með ídýfum er alltaf gott og kannski fæ ég mér blómkál og gulrætur og dýfi þeim í græna sósu. Ég mun líka setja ólífur í skál og eitthvað af hnetum. Sódavatn í flösku og ef til vill hita ég mér te.

Svo verður að vera eitthvað sætt, þó ekki innihaldi það sykur. Því ætla ég að gefa ykkur nýja uppskrift að nammi sem ég bjó til í gær.

Saltkaramellubitar með pecan hnetum 

Hráefni

25 g 100% súkkulaði

1 msk kakósmjör

1 msk kókosolía

3-4 msk heslihnetu- og möndlusmjör

1 tsk hreint vanilluduft

1/2-1 tsk salt

1/4 bolli saxaðar pecan hnetur, frá Rapunzel

1/2 bolli poppað kínúa

2 msk yacon síróp

pecan hnetur til að raða ofan á

sesamfræ

Aðferð

Saxið hnetur miðlungs gróft.

Bræðið kókosolíu, kakósmjör, súkkulaði og heslihnetu- og möndlusmör saman við lágan hita. Það þarf aðeins að hjálpa möndlusmjörinu, kremja með skeið til að það bráðni og samlagist hinu vel. Bætið salti og vanillu saman við og kælið blönduna.

Þegar blandan hefur kólnað er yacon sírópinu hrært vel saman við. Blandið síðan hnetumulningnum og poppaða kínúanu saman við.

Sett á plötu með bökunarpappír og þjappað vel. Raðið pecan hnetum ofan á og dreifið sesam fræjum yfir. Fryst í a.m.k. 2 klst og skorið niður rétt áður en það er borið fram. Geymist vel í frysti.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.