Grillað grænmeti með spírum og vegan mayo sem er bragðbætt með Thai basilíku og gulum chilli

Á sumrin er vinsælt að grilla og fyrir þau sem ekki borða steikur er fyrirtak að skella grænmeti á grillið. Allra best finnst mér að láta það liggja í kryddlegi áður. Ég ætla ekki að kenna ykkur að grilla, en hér koma uppskriftir að góðum kryddlegi og vegan mayo-i sem gott er að hafa með. Spírurnar setja svo punktinn yfir i-ið.

Grænmetið sem grillað var þegar myndirnar voru teknar var eftirfarandi; Kartöflur, sætar kartöflur, sveppir, blómkál, spergilkál, paprika, rauðlaukur, kúrbítur, eggaldin og gulrætur. En þið notið bara ykkar uppáhalds grænmeti.

Uppskriftin er gerð í samvinnu við Ecospíra og Pilippo Berio.

Kryddlögur 

Hráefni

400 ml ólífuolía

1 rauður chilli

1/2 tsk chilli flögur

2 msk saxaður engifer

7-8 hvítlauksgeirar

1 msk indversk karrýblanda

2 msk ferskur, saxaður kóríander (má sleppa eða nota aðrar kryddjurtir)

Aðferð

Skrælið hvítlaukinn, skafið engiferið og setjið það sem fara á í kryddlöginn í blandara. Blandið saman þar til allt hefur samlagast. Skerið grænmetið í bita og sneiðar og látið það liggja í leginum í a.m.k. klukkustund áður en þið grillið það.

Athugið að rótargrænmetið þarf lengri tíma svo þið byrjið á því og látið það hvíla meðan restin er á grillinu. 

Vegan mayo með Thai basilíku og gulum chilli

Hráefni

200 g ólífuolía

100 g möndlumjólk, án sætu- og þykkingarefna

2 tsk sítrónusafi eða eplaedik

salt

svartur pipar

2 gulir chilli, litlir

lúka af thai basilíku (má líka nota venjulega)

Aðferð

Skerið chilli í sneiðar. Setjið olíu, möndlumjólk, sítrónusafa, salt og pipar í könnu, eða aflangt djúpt ílát, og notið töfrasprota til að blanda saman. Það þarf að vera gert eins og myndbandið sýnir. Athugið að þetta virkar ekki eins vel ef möndlumjólkin inniheldur önnur hráefni en möndlur, vatn og salt. Aðrar tegundir af jurtamjólk sem ég hef prófað virka ekki heldur í þessu samhengi og ekki extra virgin ólífuolía heldur. Þegar blandan lítur út eins og venjulegt mayo bætið þið chilli og thai basilíku saman við og blandið áfram með töfrasprotanum þar til allt hefur samlagast.

Þetta er frá öðru skipti. Það er líka mjög gott að grilla jalapeño.

Uppskriftin er gerð í samstarfi við Ecospíra og Pilippo Berio.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.