Gómsætt salat úr ræktunarkössum og gróðurhúsi

Nú stendur yfir skemmtilegasti tíminn hjá þeim sem rækta heima. Hér sjáið þið uppskeru dagsins. Spergilkál, rauðrófa, sellerí og Lollo Bionda salat úr ræktunarkössunum og gúrkur, tómatar, kúrbítur, baunir og kryddjurtir úr gróðurhúsinu. Þarna eru líka tvö jarðarber, en þau fóru í munninn áður en salatið var tilbúið.

Áskorunin var að búa til salat úr þessu og reyna að nota eins lítið utanaðkomandi og hægt væri. Niðurstaðan var að við þetta bættist ólífuolía, hvítlaukur (ætla að rækta hann næst), sítrónusafi, salt og svartur pipar. Ekkert af þessu var nauðsyn, en gerði salatið óneitanlega betra. Við þurftum líka að bæta við smá salati því við áttum ekki nóg af Lollo Bionda. Svona er að vera gráðugur.

Stóra gúrkan var þvílíkur risi að kokteil gúrkurnar fóru inn í skáp og verða notaðar síðar. Það sem fór í salatið er u.þ.b. svona þó hlutföllin skipti ekki öllu:

1 haus Lollo Bionda

1 bakki salat

1 stór gúrka

3 stórir tómatar

5 litlir tómatar

4 spergilkálshnausar

1 rauðrófa

2 stilkar sellerí

4 litlir kúrbítar

10 sykurbaunir

salt, svartur pipar og ólífuolía

Aðferð

Þvoið allt vel og setjið salatið gegn um vindu.

Skiptið spergilkálinu í kvisti, saxið selleríið og rífið rauðrófuna.

Skerið tómatana í báta og gúrkuna í það form sem ykkur finnst skemmtilegt.

Skerið kúrbítinn í grófa strimla eftir endilöngu og hreinsið baunirnar.

Veltið kúrbít og baunum upp úr olíu og grillið það á grillpönnu í smástund. Ekki nauðsyn, má eins vera hrátt.

Blandið öllu saman í stóra skál og setjið smá olíu saman við og kryddið með salti og svörtum pipar. Ég skreytti með upprúlluðum gúrkusneiðum og hrauk af rifnum rauðrófum, en um að gera að nota ímyndunaraflið.

Svona leit salatið út áður en við skömmtuðum okkur á diskana og settum græna sósu og fræ út á.

Kryddjurtir úr gróðurhúsinu verða að grænni sósu

Hráefni

100 g ólífuolía

safi úr lítilli sítrónu eða hálfri stórri

2 hvítlauksrif

væn lúka af steinselju (ég rækta tvær tegundir sem báðar fengu að fara í sósuna)

væn lúka kóríander (má setja steinselju í staðinn)

svolítið knippi af basil

kryddið af 3 blóðbergsstilkum

örlítið rósmarín (það er mjög bragðsterkt svo ég notaði bara 4 blöð/nálar)

sjávarsalt

svartur pipar

Aðferð

Afhýðið hvítlauk og takið kryddið af blóðbergsstilkunum. Allt sett í blandara og maukað þar til það verður mjúkt.

 

Þarna sjáið þið grænu sósuna, sem oftast er kölluð salsa verde upp á fína slettísku. Ég þurrristaði líka sólblóma- og graskersfræ til að dreifa yfir.

Þarna er ég búin að setja grænu sósuna og fræin út á og ekkert eftir nema borða. Allt nýupptekið og brakandi ferskt. Þvílík sæla 🙂

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.