Fyllingar í vatnsdeigsbollur, bláberja og saltkaramellu

Bolludagurinn nálgast og þá er nú gaman að gera sér dagamun. Sumir eru fastheldnir og fá sér alltaf eins bollur, en mér finnst gaman að tilbreytingu. Í fyrra náði ég að þróa fínustu bollu uppskrift sem þið finnið HÉR og um að gera að nota hana.

En mér datt í hug að prófa nýjar fyllingar núna og hér koma uppskriftir að tveimur sem heppnuðust vel. Njótið vel!

Saltkaramellufylling

Hráefni

30 g vegan smjör, kubbur frá Naturli

3 msk heslihnetu- & möndlusmjör

2 msk yacon síróp

1 tsk vanilla 

1/2 tsk salt

1 ferna hafrarjómi til þeytingar, frá Oatly

Ég setti smá saltkaramellu ofan á bollurnar og granóla.

Aðferð

Bræðið  vegan smjörið og heslihnetu- & möndlusmjörið saman við lágan hita og saltið í lokin. 

Kælið. Athugið að það er mjög mikilvægt að blandan hafi kólnað áður en sírópið er sett saman við, því annars kristallast það og verður að sykri. 

Hrærið yacon sírópi og vanillu saman við þar til allt hefur samlagast.

Þeytið 1 fernu af hafrarjóma frá Oatly og þegar hann er næstum tilbúinn blandið þið 1-3 msk af saltkaramellukreminu saman við. Magn af kreminu í rjómanum fer eftir smekk. Þeytið svo rjómann með kreminu áfram þar til hann er kekkjalaus. Það er líka hægt að nota þeyttan kókosrjóma.

Afganginn af saltkaramellukreminu er frábært að geyma í krukku og smyrja á eitt og annað, svo sem kökur, ristað brauð, vöfflur og pönnukökur. Líka hægt að nota það sem grunn í alls konar nammibita. Saltkaramellukremið geymist vikum saman í kæli.

Ég stráði smá aðalbláberjadufti ofan á.

Aðalbláberjafylling

Hráefni

Þessi er einföld. Íslensk hollusta selur þurrkuð aðalbláber á vefsíðunni sinni. HÉRNA finnið þið þau. Því miður ekki selt í verslunum. Bragðið er alveg himneskt og hægt að blanda duftinu saman við eitt og annað.

Prófið að blanda 3 tsk af þurrkuðu aðalbláberjadufti saman við þeytttan kókos- eða hafrarjóma. 

Ef þið eigið ekki duftið er hægt að þeyta 1/4 bolla af ferskum bláberjum saman við rjómann. Það er gott líka, en ekki sama bragðið. Athugið að áður en þið bættið bláberjunum saman við þarf að fullþeyta rjómann.

Uppskriftin er gerð í samstarfi við Oatly.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.