Fiskikökur úr afgöngum

Um daginn langaði mig allt í einu mikið í fiskikökur úr afgöngum eins og mamma gerði þegar ég var lítil. Hún notaði hveiti og kartöflumjöl, svo ég var nú ekki viss um að það tækist án þess. En viti menn, það virkar ljómandi vel að nota tapioka og kemur hvorki niður á bragði né áferð. Fyrir nú utan hvað þetta er góður matur þá fylgir því líka vellíðan að geta dregið úr matarsóun.

Hráefni

500 g fiskur

300 g kartōflur, soðnar 

1 laukur

1 egg

2 msk tapioka

salt og svartur pipar

ólífuolía til steikingar

Aðferð

Afhýðið laukinn og saxið 1/4 af honum fínt, og restina í sneiðar. 

Steikið saxaða laukinn og setjið hann í hrærivélarskál ásamt afhýddum kartōflum, tapioka, salti og pipar. Blandið rólega saman með K þeytaranum. Það er líka hægt að nota kartōflustappara og síðan sleif. 

Mér finnst best að nota hendurnar til að blanda fisknum saman við og síðast egginu. Það er vegna þess að mér finnst best að kōkurnar séu grófar, en þeir sem vilja hafa þær fíngerðari geta þess vegna notað blandara.

Mótið í kōkur og látið bíða meðan þið steikið afganginn af lauknum á pōnnunni. Takið hann af áður en hann er fullsteiktur. 

Steikið fiskikökurnar í heitri olíunni þar til þær hafa fengið fallegan lit og stökka skorpu. Setjið laukinn út í undir lokinn og fullsteikið hann þannig. Mér finnst gott að setja smælki í pönnuna líka en auðvitað er allt eins hægt að bera þær fram eingöngu með fullt af grænu og góðu salati.

Það er hægt að nota afgang af nánast hvaða fiski sem er. Bollurnar á myndunum eru úr þorski en mér finnst líka gott að nota lax eða silung og þegar ég var stelpa var það í mestu uppáhaldi þegar mamma gerði afgangabollur úr saltfiski.

Ath. Það er hægt að sleppa egginu og setja aðeins meira tapioka í staðinn. Bollurnar verða ekki eins góðar og áferðin öðruvísi, en það er möguleiki fyrir þá sem ekki borða egg.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.