Bókhveitigrautur með kardimommubragði 

Hráefni

1 bolli bókhveitigrjón

1 – 1 og 1/2 bolli haframjólk (eða önnur jurtamjólk)

5-10 kardimommubelgir, heilir

1/2 tsk kanill, eða 2-3 kanilstangir

1 tsk hreint vanilluduft, frá Rapunzel

Aðferð

Leggið bókhveitigrjónin í bleyti yfir nótt. Sleppur samt alveg þó þau séu ekki nema í  2-3 tíma. Sigtið vatnið frá og hreinsið með því að láta kalt vatn úr krananum renna yfir grjónin.

Setjið haframjólkina, kanilstangir og kardimommubelgina í pott og látið suðuna koma upp. Ágætt að hafa belgina í grisju svo auðvelt sé að veiða þá upp úr grautnum í lokin. Bætið bókhveitigrjónunum út í mjólkina og sjóðið við lágan hita í 10 mínútur. Hrærið kanil (ef þið notið ekki stangir) og vanillu saman við í lokin. Takið pottinn af hellunni og leyfið grautnum að jafna sig aðeins. 

Berið fram með berjum, ávöxtum, möndlum, hnetum eða einfaldlega því sem ykkur þykir gott.

Hér setti ég saxaðar möndlur og þurrkuð trönuber út á grautinn.

Það er misjafnt hvort fólki finnst gott að hafa graut þykkann. Í þessari uppskrift er hann nokkuð þykkur, því mér líkar vel að hafa jurtamjólk út á. Ef þið viljið þunnan graut notið þið einfaldlega meiri haframjólk. 

Mér finnst gott að finna fyrir grjónunum og tyggja þau, en það er líka hægt að setja grautinn í blandara þegar hann er soðinn og mauka þar til hann verður mjúkur. Ef þið gerið það er betra að bæta meiri jurtamjólk eða vatni saman við.

Hér maukaði ég hann aðeins í blandara, án þess að hann yrði alveg mjúkur, og borðaði bláber og granateplakjarna með.

Ég nota enga sætu, finnst vanillan vera nóg, en sumum þætti eflaust gott að setja smá stevíu út í.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.