Blóðappelsínu- og súkkulaðiterta

Blóðappelsínu- og súkkulaðiterta
Sigríður „Purely Sigga“ Pétursdóttir

Hráefni

2 chia egg (2 msk chia fræ og 5 msk vatn)

2 msk olía

1/4 bolli safi úr blóðappelsínu (líka hægt að nota appelsínu)

1 msk blóðappelsínubörkur fínt rifinn

1 og 1/2 tsk vanilla

2 msk kakó

2 msk steviuduft

2 tsk matarsódi

1 tsk vínsteinslyftiduft

1/2 bolli möndlumjólk

1 bolli möndlumjöl

1/2 bolli kjúklingabaunamjöl

1/2 bolli hrísmjöl

1/2 bolli tapioka

 

Ofan á

1/4 bolli blóðappelsínusafi

1 msk rifinn blóðappelsínubörkur

2 msk stevíuduft

1 tsk örvarrót

Blóðappelsínu- og súkkulaðiterta

Aðferð

Hitið ofninn í 170 °C.

Setjið chia fræin og vatnið í stóra skál og látið bíða í fimm mínútur.

Rífið börkinn og kreistið safann úr blóðappelsínunum. Oftast duga tvær blóðappelsínur. Skiptið safanum og sítrónuberkinum í tvennt. Helmingurinn fer í skálina saman við chia eggið og hinn helmingurinn í lítinn skaftpott.

Sigtið möndlumjöl, kjúklingabaunamjöl, hrísmjöl og tapioka í aðra skál og leggið til hliðar.

Hrærið safann og börkinn vel saman við chia eggið og bætið svo við olíu, kakói, stevíudufti, vanillu, matarsóta og vínsteinslyftidufti og hrærið. Það freyðir aðeins. Blandið möndlumjólkinni saman við.

Setjið þurrefnin úr hinni skálinni saman við og hrærið saman með sleif þar til deigið hangir vel saman og er ekki kekkjótt. Það á að vera mjög þykkt.

Setjið í kringlótt form og bakið í 30-35 mínútur við 170 °C. Látið ykkur ekki bregða þó kakan lyftist ekki mikið. Þetta er öðruvísi en að baka úr sígildum hráefnum.

Á meðan kakan bakast er stevíuduftið hrært saman við blóðappelsínusafann og börkinn í skaftpottinum og þegar það hefur samlagast er örvarrótinni bætt við. Hitið að suðu þar til blandan þykknar aðeins, en sýður ekki.

Blóðappelsínu- og súkkulaðiterta

Þegar kakan er bökuð er gott að gata hana vel með gaffli og hella svo blöndunni yfir. Látið bíða þar til það hefur þornað.

Þeyttur kókosrjómi með vanillu er settur ofan á.

Hér er tertan skreytt með þurrkuðum blóðappelsínusneiðum, en það er líka hægt að skreyta með rifnum blóðappelsínuberki eða granateplum, svo dæmi séu tekin.

Til að þurrka blóðappelsínusneiðarnar raðið sneiðunum á ofngrind og hafið þær í ofninum yfir nótt við lægsta hitastig. Hitastigið er aðeins misjafnt milli ofna, en má alls ekki vera hærra en 70°C.

Freyðir þegar matarsódinn kemur saman við sýruna:

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.