Að þeyta kókosrjóma

Kókosrjómi

Tilhugsunin um að hætta að borða þeyttan rjóma var erfið, því fátt fannst mér betra. Kókosrjómi er ekki eins, en var huggun harmi gegn meðan ég syrgði þann rjóma sem ég hafði elskað frá blautu barnsbeini. Tveimur árum síðar sleiki ég út um þegar ég heyri minnst á kókosrjóma en er ekki viss um að mér þætti sá gamli ennþá góður.

Að þeyta kókosrjóma getur verið áskorun. Því kynntist ég þegar ég var að byrja að nota hann. Framan af stóð ég yfir hrærivélarskálinni og fylgdist með þeytaranum vinna sitt verk án þess að rjóminn þykknaði eða útkoman var kornótt og ólystug.

Hér koma því nokkrir punktar fyrir þá sem eru að byrja að nota kókosrjóma.

  1. Til að þeyta kókosrjóma er notuð feit kókosmjólk sem er til í dósum eða litlum fernum. Ekki kókosmjólk til drykkjar. Feiti hluti kókosmjólkurinnar situr ofan á kókosvatninu og margir nota hann eingöngu þegar þeir þeyta kókosrjóma. Mér finnst betra að nota allt úr dósinni, en það er smekksatriði. Sumir vilja hafa rjóman hnausþykkan og þá notar maður bara þykka hlutann.
  2. Það er mjög misjafnt eftir tegundum hve vel gengur að þeyta hana. Oft innihalda þær tegundir sem auðveldast er að þeyta mikið af aukaefnum. Ég borða þeyttan kókosrjóma ekki oft svo ég horfi fram hjá því þó kókosmjólkin innihaldi smávegis þykkingarefni eins og xanthan gum, en gæti þess að nota hreina og lífræna kókosmjólk í alla aðra matreiðslu. Í London þeyttist kókosmjólkin frá Waitrose vel þó hún væri án aukaefna. Sakna hennar enn. Í staðinn hef ég fundið kókosmjólk í litlum fernum frá Änglamark sem er alveg ágæt. Ég þekki líka marga sem nota Thai Choice eða Natco.
  3. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir agnarlitlu magni af xanthan gum annað slagið, geta notað kúfaða teskeið af tapioka til að þykkja rjómann.
  4. Til að kókosmjólkin þeytist vel þarf hún að hafa verið í ísskáp í nokkra klukkutíma og vera ísköld. Gott að kæla hrærivélaskálina líka í ísskáp áður en hún er þeytt.
  5. Stundum þarf að þeyta ansi lengi. Ekki gefast upp eftir eina eða tvær mínútur.
  6. Það bætir bragðið mikið að nota vanillu út í kókosrjóma.

Verði ykkur að góðu!

Kókosrjómi fyrra video:

Kókosrjómi seinna video:

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.